Hagsmunamál laganema
Varaformaður Orators 2023 – 2024 er Draupnir Dan Baldvinsson, netfang ddb4@hi.is
Hann ber ábyrgð á hagsmunamálum nemenda, sbr. 19. gr. laga Orators.
Ef þú hefur einhverjar fyrirspurnir eða athugasemdir sem varða hagsmunamál nemenda hikaðu ekki við að hafa samband við varaformann, hagsmunafulltrúa eða aðra fulltrúa nemenda. Laganemar eiga fulltrúa á deildarfundum lagadeildar og í öllum helstu nefndum.
Helstu lög og reglur lagadeildar
Almennt
Almennar reglur HÍ fyrir Lagadeild
Grunnnám
Reglur um BA nám
Reglur um BA ritgerðir
Reglur um form ritgerða
Reglur um lögfræði sem aukagrein
Framhaldsnám
Reglur um form ritgerða
Reglur um meistararitgerðir
Reglur um skiptinám, mat á utandeildarnámi og M-námskeið
Reglur um námsvist
Próf og einkunnir
Um góða starfshætti við kennslu og próf í Háskóla Íslands
Reglur um prófgögn
Reglur um munnleg próf
Reglur um fjarpróf
Fyrir nánari upplýsingar um lög og reglur lagadeildar smelltu hér
HAGMSMUNAFULLTRÚAR
Samkvæmt lögum Orators er hlutverk hagsmunafulltrúa m.a. að gæta hagsmuna nemenda hvað kennslu og námsskipan varðar. Ásamt varaformanni eru þeir fulltrúar nemenda og stuðla að því að nemendur geti talað einni röddu. Í 28. gr. laga Orators er nánar fjallað um hagmsunafulltrúa og í V. kafla laganna um hagsmunamál almennt.
Hagsmunafulltrúar fyrir skólaárið 2024 – 2025 eru:
1. ár: Ari Björn Símonarson og Helga Vigdís Thordersen
2. ár: Jóhannes Kári Sigurjónsson og Bengta Kristín Methúsalemsdóttir
3. ár: Helga Margrét Ólafsdóttir og Ólafur Helgi Örvarsson
Meistaranám: Guðrún Sóley Magnúsdóttir og Gylfi Bergur Konráðsson
DEILDARFUNDIR
Deildarfundir lagadeildar eru haldnir síðasta þriðjudag í hverjum mánuði.
Á deildarfundum eru tekin fyrir mál er varða stefnumótun deildarinnar, ný námskeið, ákvarðanir um ráðningu nýrra kennara, breytingar á reglum deildar og önnur þau mál er varða deildina á einn eða annan hátt. Fulltrúar nemenda á deildarfundum eru 4, kjörnir skv. 10. tl. 12. gr. laga Orators, og skulu þeir fara með málefni laganema á deildarfundum og gæta hagsmuna þeirra þar.
Að taka mál upp á deildarfundi er áhrifarík leið til þess að vekja máls á einhverju eða fá svör við ýmsu sem við kemur hagsmunum nemenda. Fulltrúar nemenda hafa tækifæri til þess fyrir hönd nemenda og er það oft gert.
Deildarfulltrúar fyrir skólaárið 2024 – 2025 eru ásamt varaformanni:
Laureen Ósk Jibrayel
Lárus Ottó Sigurðsson
Vignir Freyr Magnússon
Varamenn:
Líney Helgadóttir
Óðinn Ingi Þórarinsson
NÁMS- OG KENNSLUNEFND
Hlutverk nefndarinnar, sem er ráðgefandi, er að ræða ýmis mál sem varða kennslu og nám við deildina. Þá hefur deildarfundur falið námsnefnd að gera tillögur um hvaða námskeið sem tekin eru við aðra háskóla, m.a. í skiptinámi, eða í öðrum deildum háskólans eru metin inn í námið.
Námsnefnd er skipuð deildarforseta, einum fulltrúa kennara og tveimur fulltrúum nemenda. Að auki sitja fundi nefndarinnar alþjóðafulltrúi af skrifstofu lagadeildar og einn af fulltrúum nemenda á deildarfundum. Námsnefndarfulltrúar, kjörnir skv. 11. tl. 12. gr. laga Orators, skulu gæta hagsmuna laganema í málum þar sem ákvarðanir eru teknar um rétt og skyldur þeirra.
Fulltrúar nemenda í námsnefnd skólaárið 2024 – 2025 eru ásamt varaformanni:
Kristín Hekla Örvarsdóttir, aðalfulltrúi
Heba Bjarg Einarsdóttir, varafulltrúi
BA-NEFND
Hlutverk nefndarinnar er að hafa umsjón með BA-námi við deildina, skipulagi námsleiðarinnar, tilhögun námsmats og þróun og gæðum námsins og gera tillögur til deildarfundar um breytingu á reglum um námið eftir því sem þörf krefur.
Deildarfundur í lagadeild kýs þrjá úr hópi fastráðinna kennara í nefnd um BA-nám og einn varamann. Þá skulu fulltrúar nemenda á deildarfundi tilnefna einn úr sínum hópi til setu í nefndinni. Deildarfundur ákveður hver af fulltrúum kennara í nefndinni skuli vera formaður hennar.
Fulltrúi nemenda í BA-nefnd er varaformaður Orators.
JAFNRÉTTISÁÆTLUN ORATORS
Upphaflega samþykkt af stjórn félagsins þann 13. mars 2013
Samþykkt á ný af stjórn félagsins þann 18. mars 2015
Inngangur
Orator hefur sett sér það að markmiði að vera leiðandi í jafnréttismálum meðal nemendafélaga á Íslandi. Jafnréttisáætlun Orators skal vera leiðbeinandi fyrir félagsmenn og tryggja fyllsta jafnrétti milli félagsmanna óháð kyni, kynhneigð, fötlun, trúarbrögðum, skoðunum, þjóðernisuppruna, kynþætti, litarhætti, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti.
Í jafnréttisáætlun þessari koma fram helstu áherslur Orators í jafnréttismálum og leiðbeinandi reglur um hvernig unnt sé að ná þeim markmiðum. Stjórn Orators ber ábyrgð á að félagið framfylgi jafnréttisstefnu sinni.
Jafnrétti óháð kyni
Mikilvægt er að stúdentar hafi sömu tækifæri, bæði í námi og félagsstarfi, óháð kyni, og þarf sameiginlegt átak til að leiðrétta þá skekkju sem kann að vera á þátttöku kynjanna í hinu síðarnefnda.
Þátttaka í félagsstarfi veitir dýrmæta reynslu og er fólki oft hvatning til að taka að sér aukna ábyrgð í störfum síðar á lífsleiðnni. Með því að vinna markvisst að því að jafna hlutverk kynjanna í félagsstarfi Orators stuðlar félagið annars vegar að því reynsla úr starfinu dreifist með jöfnum hætti og hins vegar leggur félagið lóð sín á vogaskálarnar til að vinna að því að í framtíð verði jafnt hlutfall kvenna og karla meðal lögfræðinga í ábyrgðarstöðum í samfélaginu. Síðari punkturinn er ekki síst mikilvægur í ljósi þeirra jákvæðu áhrifa sem það hefur á ungt fólk að eiga sér fyrirmyndir af báðum kynjum innan þeirrar starfsstéttar sem það stefnir á.
Ekki er lagt til að settur verði á kynjakvóti í þau embætti og nefndastörf sem nemendur kjósa sér fulltrúa. Í þær nefndir sem stjórn Orators skipar skal gæta þess að kynjaskipting sé jöfn, enda séu umsækjendur jafn hæfir til að gegna nefndarstörfunum.
Þegar því verður komið við skal gæta þess að aðilar af báðum kynjum séu meðal frummælenda á málþingum sem haldin eru af Orator. Þetta er lykilþáttur í að tryggja jafnræði kynjanna á öllum sviðum félagsstarfsins. Að auki eru málþingin vettvangur þar sem Orator gefst færi á að sýna út á við ábyrgð í jafnréttismálum.
Að sama skapi þarf að huga að því að hlutfall kynjanna meðal höfunda fræðigreina í Úlfljóti sé jafnt.
Orator skal ekki halda viðburði sem einungis standa öðru kyni til boða. Jafnframt skal ekki halda viðburði, sem bersýnilega eru miðaðir að öðru kyni, nema jafn margir viðburðir séu haldnir, sem miðaðir eru að hinu kyninu. Eftir fremsta megni skal gæta þess að húsnæði, sem atburðir á vegum félagsins eru haldnir í, hafi aðgengi fyrir alla.
Mismunun
Mismunun, á grundvelli þeirra atriða sem talin eru í inngangi, samræmist að sjálfsögðu ekki virðingu laganema, eða nokkurrar manneskju ef því er að skipta. Líkt og ráða má af upptalningunni er listinn ekki tæmandi. Gæta skal þess í hvívetna að fyllsta jafnræðis sé gætt í félagsstarfi, við hagsmunagæslu, í fræðastarfi og almennt í félagsstarfinu.
Að bestu vitund stjórnar hafa ekki komið upp mál þar sem reynir á mismunun af ómálefnalegum ástæðum. Þekkt er að í félagsstarfinu sé forgangur í ferðir, þar sem sætafjöldi er takmarkaður, gefinn á grundvelli stigakerfis. Samkvæmt því eru stig gefin fyrir þátttöku í starfi Orators og er notkun kerfisins lögfest í 43. gr. laga félagsins. Telst leið þessi bæði sanngjörn og málefnaleg til mats á umsækjendum.
Telji nemandi sér mismunað á grundvelli ómálefnalegra ástæðna skal hann, eftir aðstæðum, geta leitað til varaformanns Orators, annarra stjórnarmeðlima og hagsmunafulltrúa. Skal þetta gilda óháð því hvort mismunað sé af hálfu Orators eða lagadeildar Háskólans.
Hér skal jafnframt bent á að hægt er að leita til jafnréttisfulltrúa Háskóla Íslands og jafnréttisfulltrúa Stúdentaráðs Háskóla Íslands hvenær sem er, óháð því hvort önnur úrræði standi til boða.
Eftirfylgni
Á hverju námsári sitja tveir hagsmunafulltrúar, einn af hvoru kyni. Í meistaranámi er þó heimilt að skipa einn hagsmunafulltrúa af hvori kyni fyrir bæði námsárin, sbr. 28. gr. laga Orators. Hagsmunafulltrúar skulu vera trúnaðarmenn. Með því er átt við að ef nemendur óski þess að leita til þeirra komi einhver alvarleg mál upp eru þeir, ásamt stjórn Orators, bundnir fullum trúnaði og skulu beina viðkomandi til réttra aðila.
Ásamt því að vera trúnaðarmenn sinna ára er lagt til að hagsmunafulltrúar nemenda muni sinna hlutverkum jafnréttisfulltrúa. Hlutverk þeirra verður þá að tryggja framgang þess kafla jafnréttisstefnunnar sem fjallar um jafnrétti kynjanna og fylgjast með eftirfylgni hans. Sé jafnréttisáætlun Orators hunsuð bersýnilega af ábyrgðaraðilum getur verið ástæða til að áminna stjórn eða, eftir tilvikum, grípa til enn róttækari aðgerða. Hér skal þó áréttast að um viðmiðunarreglur er að ræða og geta margar misjafnar leiðir leitt að sama markmiði. Sammælst hefur verið um að í stefnumótun sem þessari séu boð líklegri en bönn til að viðhalda og ýta undir þá jákvæðu þróun sem í gangi er.