Lög og fundarsköp

Lög og fundarsköp Orators, félags laganema við Háskóla Íslands

I. HEITI, HEIMILI OG HLUTVERK

1. gr. Félagið heitir Orator, félag laganema. Heimili þess er Lögberg, Háskóla Íslands. Grágás er merki félagsins

2. gr. Hlutverk félagsins er:

a. Að auka kynni laganema og fylkja þeim um hagsmunamál þeirra og stofna til kynna við lögfræðinga.

b. Að vera í fyrirsvari fyrir laganema Háskóla Íslands gagnvart háskólayfirvöldum, opinberum aðilum og öðrum innlendum og erlendum aðilum.

c. Að þjálfa félaga sína til lögfræðilegra viðfangsefna, rökfimi, mælskulist og öðru því sem prýða má góðan lögfræðing.

d. Að annast útgáfustarfsemi um lögfræði, svo og um hagsmuna- og áhugamál laganema.

e. Að halda sambandi og samvinnu við erlenda stúdenta, einkum á Norðurlöndunum

3. gr. Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því m.a.:

a. Að efna til funda um lögfræðileg og félagsleg málefni.

b. Að efna til málflutningsæfinga og æfinga um lögfræðileg efni.

c. Að halda lögfræðilega ræðukeppni, Orator Oratorum, í nóvembermánuði ár hvert.

d. Að halda „seminar“ um lögfræðileg málefni.

e. Að efla persónuleg kynni laganema með því að efna til málfagnaða og halda hátíðlegan dag félagsins, 16. febrúar, með fyrirlestrahaldi, málflutningi eða málþingi og veisluhöldum.

f. Að gangast fyrir a.m.k. fjórum kokteilboðum á hvoru misseri.

g. Að gangast fyrir stúdentaskiptum og taka reglulega þátt í mótun norrænna lagastúdenta og ungra lögfræðinga.

h. […]

i. Að vera vakandi um öll þau mál sem snerta laganema og lögfræðinga í landinu.

j. Að hafa starfandi hagsmunaráð.

k. Að hafa starfandi nefnd til að sjá um samskipti Orator við erlenda laganema og félög þeirra. Alþjóðaritari félagsins veitir nefndinni forstöðu, en stjórnin skipar aðra nefndarmenn úr röðum félagsins. Alþjóðaritara er heimilt að skipta nefndinni í tvennt.

l. Að gefa út Úlfljót, tímarit laganema.

m. Standa fyrir Málflutningskeppni Orators eigi sjaldnar en annað hvert ár.

n. Að starfrækja endurgjaldslausa lögfræðiaðstoð fyrir almenning.

II. FÉLAGSMENN

4. gr. „Allir stúdentar innritaðir í lagadeild Háskóla Íslands, með lögfræði sem aðal- eða aukagrein, geta orðið félagar í Orator.“

5. gr. Allir prófessorar og kennarar lagadeildar Háskóla Íslands hafa rétt til setu á fundum félagsins og njóta þar fullkomins mál- og tillögufrelsis

6. gr. Félagið getur kosið heiðursfélaga úr hópi lögfræðinga, innlendra sem erlendra skv. tillögu frá stjórn félagsins og telst það æðsta viðurkenning félagsins. Tillaga um slíkt kjör skal borin fram á fundi í félaginu og telst hún samþykkt ef ¾ hlutar fundarmanna greiða henni atkvæði. Skal stjórnin halda skrá yfir heiðursfélaga. Stjórn félagsins er heimilt að sæma þá aðila, innlenda sem erlenda, sem sýnt hafa sérstakan áhuga á hagsmunamálum laganema, barmmerki félagsins úr gulli. Félagsmönnum, sem ljúka embættisprófi eða meistaraprófi í lögfræði, skal afhent heiðursskjal frá félaginu á hátíðisdegi félagsins, enda votti þeir Grágás virðingu sína.

7. gr. Stjórn Orators skal bjóða laganemum við Háskóla Íslands barmmerki félagsins til kaups.

8. gr. Ekki er heimilt að víkja félagsmanni úr félaginu, sbr. þó 4. gr. Réttindanautn í félaginu er þó bundin því skilyrði að félagar hafi greitt árstillag skv. 9. gr. Heimilt er að víkja félagsmanni af fundi í félaginu skv. 29. gr. fundarskapa Orator.

9. gr. Stjórn Orators ákveður árstillag félagsmanna fyrir upphaf hvers kennsluárs. Skal innheimta árstillagsins hefjast að hausti. Stjórn félagsins er heimilt að útbúa félagsskírteini, sem afhenda skal hverjum félagsmanni, er hann hefur greitt árstillag sitt. Stjórninni er heimilt að afla styrktarfélaga úr hópi lögfræðinga eftir reglum sem hún setur.

10. gr. Reikningsár félagsins er á milli aðalfunda. Reikningum félagsins skal lokað fjórum sólarhringum fyrir aðalfund og skilað til endurskoðenda félagsins tveimur sólarhringum fyrir aðalfund.

III. AÐALFUNDUR

11. gr.

a. Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda eigi síðar en í [annarri viku aprílmánaðar] ár hvert. Framhaldsaðalfund skal halda eigi síðar en fjórum vikum eftir að aðalfundur hefur farið fram. Til aðalfundar og framhaldsaðalfundar skal boða með áberandi auglýsingu í anddyri Lögbergs, á vefsíðu Orators og með tölvupósti sendum til félagsmanna, með viku fyrirvara hið skemmsta.

b. Tillögur til lagabreytinga skal kynna á sama vettvangi eigi síðar en tveimur dögum fyrir aðalfund, sbr. 2. málsl. 13. gr.

c. Aðeins félagsmenn Orators hafa atkvæðisrétt á aðalfundi. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á aðalfundi, nema annars sé getið í lögum þessum. Við kosningu í embætti samkvæmt 10 tl., 11 tl. og 12 tl. 12. gr. njóta allir nemendur í lagadeild Háskóla Íslands sömu réttinda og félagsmenn Orators.

d. Kosningastjóri skal skipaður af stjórn Orators eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund. Að tillögu kosningastjóra skipar stjórn Orators tvo aðila, er ásamt kosningastjóra, mynda kjörstjórn Orators. Kosningastjóri skal annast framkvæmd og undirbúning stjórnarkjörs, m.a. með framboðsfundi. Skal hann hafa lokið BA-námi í lögfræði við lagadeild Háskóla Íslands. Kosningastjóri er ekki kjörgengur á aðalfundi Orators og má ekki sitja í stjórn félagsins. Kosningastjóri skal skipa aðalfundi ritara.

e. Allir meðlimir í Orator eru kjörgengir til stjórnar Orators á aðalfundi félagsins. Afl atkvæða ræður úrslitum. Reynist atkvæði jöfn, þannig að ekki verði skorið úr um kjör í embættið, skal kjörstjórn framkvæma talningu á nýjan leik. Séu atkvæði enn jöfn að endurtalningu lokinni, skal kjósa að nýju þá þegar. Kosið skal milli þeirra frambjóðenda sem hlutu flest atkvæði eftir endurtalningu. Reynist atkvæði enn jöfn að því loknu, þannig að ekki verði skorið úr um kjör í embættið, skal hlutkesti ráða úrslitum. Kosningastjóri skal framkvæma hlutkestið opinberlega á aðalfundi.

f. Gefi aðeins einn frambjóðandi kost á sér í tiltekið stjórnarembætti, þarf sá að hljóta minnst 50% greiddra atkvæða til að ná kosningu, þrátt fyrir ákvæði e. liðar. Nái frambjóðandi ekki tilskildum fjölda atkvæða, skal boða til nýrra kosninga til viðkomandi embættis á framhaldsaðalfundi, eða eigi síðar en fjórum vikum eftir að aðalfundur er haldinn, og skal kjörstjórn sjá um framkvæmd þeirra. 

g. Heimilt er að halda utankjörfundaratkvæðagreiðslu sama dag og kosning stjórnar fer fram. Atkvæðagreiðsla skal fara fram í Lögbergi og má að hámarki standa í tvær klukkustundir. Stjórn Orators í samráði við kosningastjóra ákveður nánari tímasetningu og auglýsir utankjörfundaratkvæðagreiðslu með hæfilegum fyrirvara.

h. Ekki er heimilt að bjóða fram annan félagsmann í nefnd á aðalfundi án skriflegs samþykkis þess efnis.

12. gr. Dagskrá aðalfundar skal vera:

1. Skýrsla stjórnar.

2. Stjórnin leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins.

3. Umræður um skýrslur og reikninga.

4. Lagabreytingar

5. Kosning stjórnar fyrir næsta starfsár.

6. Hin nýkjörna stjórn tekur formlega við völdum og vottar GRÁGÁS virðingu sína.

7. Kappdrykkja öls milli fráfarandi stjórnar og nýkjörinnar stjórnar.

8. Kór.

9. Kosning ferðamálráðs.

10. Kosning fulltrúa og varafulltrúa á deildarfundi lagadeildar, skulu þeir kosnir til tveggja ára. Fjöldi deildarfulltrúa skal fara eftir reglum Háskóla Íslands. Varaformaður félagsins er sjálfkjörinn deildarfundarfulltrúi til eins árs.

11. Kosning eins fulltrúa í náms- og kennslunefnd og annan til vara, til tveggja ára í senn. Varaformaður félagsins er sjálfkjörinn í náms- og kennslunefnd til eins árs.

12. Kosning fulltrúa í gæðanefnd, til tveggja ára í senn. Í gæðanefnd sitja tveir laganemar og skal einn kosinn til setu á hverjum aðalfundi.

13. Kosning ritstjóra GRÍMS GEITSKÓS.

14. Kosning ritstjóra Margmiðlunarnefndar.

15. Kjör tveggja skoðunarmanna. Hvorki mega þeir eiga sæti né hafa átt sæti í stjórn Orators eða vera, eða hafa verið, framkvæmdastjórar Úlfljóts. Skoðunarmenn skulu ráðfæra sig við gjaldkera stjórnar fyrri árs.

16. Kosning þriggja laganema í Lagaráð Orators, sbr. 15. gr.

17. Önnur mál.

13. gr. Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi félagsins. Tillögum til lagabreytinga skal skilað til stjórnar félagsins eigi síðar en tveimur dögum fyrir aðalfund og þær auglýstar skv. 4. málsl. 1. mgr. 11. gr. Nái tillaga til lagabreytinga samþykki 2/3 hluta fundarmanna, fær hún gildi þá þegar. Tillögur til breytinga á lögum verða ekki teknar til meðferðar nema fjórðungur félagsmanna hið fæsta sé viðstaddur

14. gr. Nú hefur tillaga til lagabreytinga komið fram á réttum tíma, en ekki er mættur tilskilinn fjöldi félagsmanna skv. 13. gr. og skal þá efna til framhaldsaðalfundar um tillöguna. Er sá fundur lögmætur og ályktunarfær um lagabreytinguna án tillits til fundarsóknar og fær tillagan gildi ef 2/3 fundarmanna samþykkja hana.

15. gr. Lagaráð skal vera starfrækt innan Orators. Hlutverk ráðsins skal vera að endurskoða lög félagsins og leggja fram tillögur til breytinga þar að lútandi. Ráðið skipa formaður og varaformaður Orators auk þriggja laganema sem kjörnir skulu á aðalfundi Orators skv. 12. gr. Eigi færri en þrír fundir skulu haldnir í ráðinu ár hvert. Á fyrsta fundi ráðsins skulu ráðsmenn kjósa sér formann og ritara. Einfaldur meirihluti ræður niðurstöðunni. […]

16. gr. [Formaður Orators skal birta uppfærða útgáfu laga félagsins á vefsvæði þess að lokmum hverjum aðalfundi. Hann skal og varðveita útprentaða útgáfu laganna á skrifstofu félagsins auk þess sem deildarforseta skal afhent afrit af lögunum.]

IV. STJÓRN FÉLAGSINS

17. gr. Stjórn félagsins skipa sjö laganemar við Háskóla Íslands: Formaður, varaformaður, ritstjóri Úlfljóts, alþjóðaritari, funda- og menningarmálastjóri, skemmtanastjóri og gjaldkeri

18. gr. Stjórnin er kjörin til eins árs í senn. Allir stjórnarmenn skulu kosnir sérstaklega: formaður, varaformaður, ritstjóri Úlfljóts, alþjóðaritari, funda- og menningarmálastjóri, skemmtanastjóri og gjaldkeri. Stjórn félagsins skipar nefndir á vegum þess.

19. gr.

a. Formaður hefur yfirumsjón með starfsemi stjórnar. Formaður stýrir fundum, í forföllum hans varaformaður. Formaður, í fjarveru hans varaformaður, kemur fram fyrir hönd Orators í samskiptum við aðila utan lagadeildar.

b. Varaformaður ritar fundargerðir, heldur sérstaka bréfabók yfir send og aðkomin bréf og ber ábyrgð á hagsmunamálum laganema.

c. Gjaldkeri skal jafnan halda eignaskrá yfir verðmæta muni félagsins og færa sanngjarnt matsverð til eigna í reikninga. Gjaldkeri hefur einn umsjón með fjárráðum félagsins þar með talið allra nefnda og ráða nema annað sé kveðið á um í lögum þessum.

d. Alþjóðaritari skal sjá um samskipti Orators við erlend laganemafélög, og bera ábyrgð á heimsóknum þeirra til Íslands. Stjórn Orators er heimilt að skipa aðstoðaralþjóðaritara eftir tillögu frá alþjóðaritara, sem verður honum innan handar. Viðkomandi skal vera félagi í Orator, sbr. 4. gr., en telst ekki vera í stjórn Orator sbr. 17. gr. Aðstoðaralþjóðaritari skal eiga sæti í nefnd þeirri er sér um samskipti Orator við erlenda laganema, sbr. K.-lið 3. gr.

e. Funda- og menningarmálastjóri skal sjá um menningarlegar uppákomur, sem fram fara á vegum félagsins. Hann skal standa að lágmarki fyrir tveimur málþingum um lögfræðileg álitaefni á hvoru misseri. Málþingin skulu tekin upp. Einnig ber funda- og menningarmálastjóri ábyrgð á framkvæmd Málflutningskeppni Orators og ræðukeppninni Orator Oratorum. Stjórn Orators skipar funda- og menningarmálanefnd að tillögu funda- og menningarmálastjóra. Í henni skulu sitja að hámarki átta laganemar. Skulu nefndarstörfin auglýst laus til umsóknar.

f. Skemmtanastjóri skal sjá um allar skemmtanir, sem fram fara á vegum félagsins. Stjórn Orators skipar skemmtinefnd að tillögu skemmtanastjóra. Í henni skuli sitja að hámarki átta laganemar. Skulu nefndarstörfin auglýst laus til umsóknar.

20. gr. Í félaginu skal vera heiðursráð, skipað fyrrverandi formönnum, varaformönnum og ritstjórum sem lokið hafa embættis- eða meistaraprófi í lögfræði. Auk þess getur aðalfundur nefnt lögfræðinga í ráðið, sem sýnt hafa sérstakan áhuga á hagsmunum laganema. Stjórn félagsins á hverjum tíma á sæti í heiðursráði og kveður það saman til fundar. Skal ráðið koma saman við undirbúning ýmissa stórviðburða. Heiðursráðið skal vera stjórn Orators til ráðuneytis.

21. gr. Stjórn félagsins ræður málefnum þess með þeim takmörkunum, sem lög þessi setja. Hún tekur nánari ákvarðanir um starfsemi þess og er ábyrg fyrir fjárreiðum og skuldbindingum gagnvart öðrum aðilum. Stjórn Orators skipar í nefndir, ráð og embætti á vegum félagsins með þeim takmörkunum sem 12. gr. setur.

22. gr. Stjórn Orators er óheimilt að gera samninga eða stofna til fjárskuldbindinga sem til þess eru fallnar að binda hendur komandi stjórna. Séu samningar gerðir til lengri tíma en eins árs í senn, skulu þeir innihalda uppsagnarákvæði Orators til handa.

23. gr. Stjórnarfundi skal boða með tryggilegum hætti og með eins dags fyrirvara, ef unnt er. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef fimm stjórnarmenn hið fæsta sækja fund og sitja. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum.

24. gr. Stjórninni er skylt að efna til almenns fundar, ef 15 félagar hið fæsta óska þess skriflega. Almennir fundir skulu auglýstir tryggilega og með eigi minna en tveggja daga fyrirvara.

25. gr. Hátíðisdagur Orators er 16. febrúar ár hvert, sbr. 5. tl. 3. gr. Stjórn félagsins skipar hátíðarnefnd, að undangenginni auglýsingu meðal laganema, er annast undirbúning hátíðarinnar, og skal skemmtanastjóri vera formaður hennar.

26. gr. Nú kemur fram vantraust á stjórnarmeðlim félagsins, og skal það þá hljóta sömu meðferð og afgreiðslu og lagabreytingar hvað snertir birtingarfrest, auglýsingu og samþykki. Nái vantraust fram að ganga skal fundarstjóri þess fundar boða til almenns félagsfundar innan tveggja vikna með tryggilegum hætti og a.m.k. viku fyrirvara. Skal þar kjósa bráðabirgða stjórnarmeðlim samkvæmt fundarsköpum félagsins sem situr fram að næsta aðalfundi. Sömu reglur skulu gilda ef stjórnarmeðlimur Orators segir af sér.

V. HAGSMUNAMÁL

27. gr. Deildarfulltrúar kjörnir skv. 10. tl. 12. gr. laga Orators skulu fara með málefni laganema á deildarfundum og gæta hagsmuna þeirra þar. Náms- og kennslunefndarfulltrúar kjörnir skv. 11. tl. 12. gr. laga Orators skulu gæta hagsmuna laganema í málum þar sem ákvarðanir eru teknar um rétt eða skyldur þeirra.

28. gr. Varaformaður skal skipa tvo nemendur af hverju ári til að gegna störfum hagsmunafulltrúa. [Skal hver árgangur hafa tvo hagsmunafulltrúa og skulu þeir ekki vera af sama kyni]. Hagsmunafulltrúar gæta hagsmuna síns árgangs hvað varðar kennslu og námskipan, ásamt því að vera trúnaðarmenn nemenda. Þeim er skylt að kynna sig og aðstoðarmenn sína fyrir öðrum nemendum árgangsins, sem og öllum kennurum sem koma að kennslu árgangsins. Skipuðum hagsmunafulltrúum er heimilt að velja sér einn til tvo nemendur úr sínum árgangi, með samþykki varaformanns, sér til aðstoðar og til að efla umræður um hagsmunamál nemenda. Hagsmunafulltrúar skulu skipaðir eigi síðar en í annari viku haustmisseris, að undangenginni auglýsingu meðal laganema. Heimilt er að skipa tvo hagsmunafulltrúa í stað fjögurra fyrir meistaranámið í heild sinni. Varaformaður skal skila lista yfir fulltrúa allra árganga til skrifstofu lagadeildar eigi síðar en viku eftir skipan þeirra.

29. gr. Innan Orators skal starfa hagsmunaráð. Í því sitja varaformaður Orators, deildarfulltrúar og náms- og kennslunefndarfulltrúar laganema, ásamt hagsmunafulltrúum hvers árgangs og skal hagsmunaráð vera samstarfsvettvangur þeirra. Hagsmunaráð skal [funda að minnsta kosti einu sinni á önn] og marka stefnu Orators í málefnum sem varða laganámið almennt og kennsluhætti. Varaformaður Orators er formaður hagsmunaráðs og kallar það saman.

[29. gr. a. Stjórn félagsins skal á hverju starfsári leggja eitthvað af mörkum til undirbúnings útgáfu næsta bindis Sögu Orators. Þá vinnu sem unnin er af hendi í þágu þessa skal kynna á aðalfundi. Stjórn Orators skal setja sér starfsreglur um meðferð sjóðsins. Reglurnar skulu birtar á vefsíðu Orators.

[29. gr. b. Stjórn félagsins er skylt að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að leggja 100.000 kr. fyrir á hverju starfsári. Fjármagnið skal renna í sjóð með það eina markmið að fjármagna aðra útgáfu af sögu Orators. Takist ekki að leggja 100.000 kr. má lækka upphæðina í samræmi við getu fjárhags félagsins það starfsárið. Stjórnin skal halda sjóðnum aðskildum frá öðrum sjóðum félagsins.

[29. gr. c. Hver stjórn Orators skal leggja til hliðar fjárhæð, minnst 50.000 kr., sem nýtast skulu til að fjármagna afmælisfögnuð Orators árið 2028. Víkja má frá ákvæðinu ef fjárhagsörðugleikarvalda því að ekki er unnt að leggja áðurgreinda upphæð til hliðar.]

VI. ÚLFLJÓTUR

30. gr. Rit laganema heitir Úlfljótur. Fjögur rit skulu gefin út ár hvert. Fyrsta ritið skal gefa út eftir útgáfu síðasta tölublaðs undanfarandi árgangs og eigi síðar en 31. janúar. Annað ritið skal gefa út eigi síðar en 30. apríl. Þriðja ritið skal gefa út eigi síðar en 31. júlí og fjórða ritið skal gefa út eigi síðar en 31. október. Ritstjóri ber ábyrgð á efni ritsins. Ritið fá félagsmenn Orators sér að kostnaðarlausu gegn framvísun félagsskírteinis, en þó einungis sé þess vitjað innan níu mánaða frá útgáfu.

31. gr. Úlfljótur skal starfrækja sjóð er ber heitið Fræðasjóður Úlfljóts. Markmið sjóðsins skal vera að efla fræðastarf og rannsóknarvinnu á sviði lögfræði, sérstaklega meðal laganema og kennara við lagadeild Háskóla Íslands. Styrkir skulu veittir að vori hvers árs og má heildarfjárhæð þeirra nema allt að kr. 600.000. Stjórn sjóðsins skipa: framkvæmdarstjórar Úlfljóts, ritstjóri Úlfljóts, forseti lagadeildar Háskóla Íslands og forstöðumaður Lagastofnunar Háskóla Íslands. Laganemar skulu ávallt skipa meiri hlutar stjórnar sjóðsins. Nánar fer um sjóðinn skv. skipulagsskrá, sem sett skal af stjórn sjóðsins.

[31. gr. a. Vefrit Úlfljóts er rafræn útgáfa Úlfljóts. Á heimasíðu vefrits Úlfljóts skal birta stuttar, ritrýndar greinar eigi sjaldnar en mánaðarlega. Ritstjóri Úlfljóts hefur yfirumsjón með vefriti Úlfljóts og ber ábyrgð á efni ritsins. Ritstjóri Úlfljóts skipar umsjónarmann vefrits Úlfljóts. Skal hann koma úr ritnefnd Úlfljóts. Umsjónarmaður vefrits Úlfljóts hefur umsjón með daglegum rekstri vefritsins ásamt ritstjóra Úlfljóts, meðal annars söfnun og birtingu greina. Greinarnar skal birta á heimasíðu vefrits Úlfljóts í það minnsta mánaðarlega. Ritstjóri Úlfljóts hefur yfirumsjón með vefriti Úlfljóts og ber ábyrgð á efni ritsins.]

32. gr. Í hverju tölublaði Úlfljóts skal birtast a.m.k. ein fræðigrein um lögfræðileg efni. Reynt skal að örva fræðistörf laganema með birtingu fræðigreina eftir þá, verðlaunasamkeppni o.þ.h. Heimilt er að skipa nefnd þriggja valinkunnra lögfræðinga, sem ritstjóri getur leitað álits hjá um efnisval blaðsins.

33. gr. [Stjórn Orators skipar ritnefnd Úlfljóts að tillögu ritstjóra Úlfljóts. Í henni skulu sitja að hámarki 5 laganemar. Skulu nefndarstörfin auglýst laus til umsóknar. Ritnefnd Úlfljóts, hefur auk ritstjóra með hendi ritstjórn Úlfljóts. Ritnefndin skal vera ritstjóra til aðstoðar og ráðuneytis um öll mál er varða blaðið. Ritstjóri er formaður ritstjórnar.]

34. gr. Í upphafi júlímánaðar ár hvert skal stjórn Orators, að tillögu fráfarandi framkvæmdastjóra og ritstjóra Úlfljóts, skipa tvo laganema við Háskóla Íslands til að gegna stöðum framkvæmdarstjóra Úlfljóts. Auglýsa skal embætti framkvæmdastjóra Úlfljóts meðal laganema. Viðtakandi framkvæmdastjórar skulu þó eigi hefja störf fyrr en í upphafi ágústmánaðar. Þegar framkvæmdastjórar taka við starfi sínu skulu þeir setja sér sérstakar verklagsreglur er kveða m.a. á um föst mánaðarlaun er þeir þiggja fyrir störf sín, og að auki gera fjárhagsáætlun í upphafi haustannar, og skal vera tilbúin eigi síðar en 15. september ár hvert. Verklagsreglurnar og fjárhagsáætlunin skulu bornar undir fráfarandi framkvæmdastjóra og samþykktar af formanni Orators og ritstjóra Úlfljóts. Framkvæmdarstjórar skipa framkvæmdastjórn Úlfljóts. Framkvæmdastjórnin skal annast daglegan rekstur ritsins, dreifingu þess sem og öflun auglýsinga í það. Í því sambandi er framkvæmdastjórn heimilt að ráða sérstakan auglýsingasafnara. Framkvæmdastjórn ákveður kjör hans og ber ábyrgð á þeim. Framkvæmdastjórnin skal halda utan um og bera ábyrgð á fjárreiðum Úlfljóts sem og sjá um bókhaldsuppgjör tímaritsins. Þá skulu formaður Orators og ritstjóri Úfljóts hafa aðgang að bókhaldi og öllum gögnum varðandi fjárreiður Úlfljóts. Jafnframt ber framkvæmdastjórnin ábyrgð á efni, sem gefið er út í nafni Úlfljóts, öðru en því sem ritstjóri ber ábyrgð á skv. 30. gr. Þá skal stjórnin og annast rekstur bóksölu Úlfljóts sem og heimasíðu tímaritsins. Fjárskuldbindingar, að fjárhæð kr. 100.000 eða meira, fyrir hvern einstakan atburð eða viðburð, skulu ekki öðlast gildi nema að fenginni staðfestingu framkvæmdastjóra Úlfljóts, ritstjóra Úlfljóts auk formanns Orators. Ekki þarf að leita eftir leyfi þessu, gagnvart fjárútlátum er varða rekstur bóksölu Úlfljóts. Samningar sitjandi framkvæmdastjórnar eða ritstjórnar er varða málefni Úlfljóts mega ekki gilda lengur en til upphafs síðara misseris þess skólaárs sem viðtakandi stjórnir koma til með að sitja. Framkvæmdastjórn Úlfljóts, Ritstjóri Úlfljóts og formaður Orators skulu funda á þriggja mánaða fresti og skal framkvæmdastjórn veita þeim uppýsingar um rekstur Úlfljóts skv. 2.- 4. mgr. Formaður Orators og ritstjóri Úlfljóts eru bundnir fullkomnum trúnaði gagnvart þeim upplýsingum er varða rekstur Úlfljóts.

35. gr. Ritstjóri og framkvæmdastjórar skipa stjórn sem og útgáfuráð Úlfljóts. Sérútgáfur á vegum Úlfljóts skulu vera í höndum útgáfuráðs. Ritstjóri stýrir fundum þess.

36. gr. Hagnaði af starfsemi Úlfljóts skal eingöngu varið til reksturs, útgáfu og annarrar starfsemi á vegum Úlfljóts, laganemum til heilla, en ekki til reksturs Orators. Reikningum Úlfljóts skal haldið sérgreindum. Skal þeim lokað 2 sólarhringum fyrir aðalfund og skilað til endurskoðanda félagsins sólarhring fyrir aðalfund.

VII. LÖGBERGSDÓMUR

37. gr.

a. Orator og Úlfljótur skulu í sameiningu starfrækja dómstól laganema, er ber heitið Lögbergsdómur, og skal hann halda dómþing í stofu 203 í Lögbergi.

b. Við Lögbergsdóm skal skipa einn dómstjóra. Skal hann vera skipaður frá og með 1. júní ár hvert. Embætti dómstjóra skal vera auglýst laust til umsóknar eigi síðar en 1. maí. Þann einn má skipa í embætti dómstjóra sem lokið hefur BA-prófi frá lagadeild Háskóla Íslands. Í embætti dómstjóra skal sá veljast sem skipunarmenn meta hæfastan til starfans. Við mat á hæfni umsækjanda skal meðal annars líta til námsárangurs, starfsreynslu og framtakssemi. Eftirtaldir aðilar skipa í embætti dómstjóra: Fráfarandi dómstjóri Lögbergsdóms, formaður Orators og ritstjóri Úlfljóts. Ef fráfarandi dómstjóri sækir um að nýju, skal varaformaður taka sæti hans í skipunarnefnd.

c. Í Lögbergsdómi eiga sæti einn eða þrír dómarar. Dómarar skulu vera skipaðir í hvert mál fyrir sig. Þann einn má skipa í embætti Lögbergsdómara sem lokið hefur BA-prófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands. Við mat á því hvort skipa skuli einn eða þrjá dómara til setu í máli skal líta til umfangs málsins, viðfangsefni þess og mögulega þörf á sérþekkingu. Ef skipunarmenn í embætti Lögbergsdómara telja mál krefjast þess að skipaðir séu sérfróðir meðdómendur er það heimilt, skal þá Lögbergsdómari gegna formennsku í dómnum. Við mat á því hvern skal skipa í embætti Lögbergsdómara skal líta til námsárangurs, starfsreynslu, námsframvindu og samskiptahæfni. Ef skipaðir eru þrír Lögbergsdómarar skulu þeir kjósa sér forseta sem fer með formennsku í dómnum. Eftirtaldir aðilar skipa í embætti Lögbergsdómara: Dómstjóri Lögbergsdóms, formaður Orators og ritstjóri Úlfljóts.

d. Dómstjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri Lögbergsdóms og fer með fjárreiður hans. Dómstjóri undirbýr mál sem lögð eru fyrir Lögbergsdóm og aðstoðar aðila máls eftir því sem við á.

e. Ef aðili fer ekki sjálfur með mál sitt fyrir Lögbergsdómi eða sá sem að lögum getur verið fyrirsvarsmaður hans í dómsmáli verður ekki öðrum en þeim er lokið hafa prófi í Réttarfari I frá lagadeild Háskóla Íslands falið að gæta þar hagsmuna hans. Ef fleiri aðilar flytja mál í sameiningu þarf einn þeirra að uppfylla fyrrgreind skilyrði um að hafa lokið prófi í Réttarfari I.

VIII. GRÍMUR GEITSKÓR

38. gr. Fréttablað laganema heitir Grímur Geitskór. Skylt er að gefa Grím Geitskó út a.m.k. einu sinni á misseri. Efni blaðsins skal vera virðingu laganema samboðið og má ekki vera mjög móðgandi í garð einstakra laganema, kennara eða annarra einstaklinga. Ritstjóri ber einn ábyrgð á efni blaðsins.

39. gr. Stjórn Orators skipar Grími Geitskó ritstjórn að tillögu ritstjóra hans.

40. gr. Útgáfukostnaður Gríms Geitskós greiðist úr sjóði Orators, enda standi auglýsingatekjur ekki undir kostnaði blaðsins. Skal reikningum Gríms Geitskós ekki haldið sérgreindum.

IX. FERÐASJÓÐUR

41. gr. Heimilt er að starfrækja sjóð, er nefnist ferðasjóður Orators.

42. gr. Hlutverk sjóðsins er að styðja og efla ferðalög íslenskra laganema á mót og málflutningskeppnir laganema á erlendri grund. Með stjórn sjóðsins fer ferðamálaráð Orators. Ferðamálaráð er skipað þremur mönnum: Alþjóðaritara Orators, sem er formaður ráðsins, gjaldkera Orators og einum kosnum á aðalfundi Orators ár hvert.

43. gr. Ferðamálaráð skal sjá um ávöxtun sjóðsins hverju sinni. Höfuðstóll sjóðsins skal ávallt vera að lágmarki 300.000 kr. Höfuðstól sjóðsins ásamt verðbótum má aldrei skerða. Úthlutað skal úr sjóðnum ár hvert. Við úthlutun skal tekið mið af eftirfarandi:

1. Einungis þeir sem starfað hafa í þágu Orators geta vænst þess að hljóta styrk úr Ferðasjóði Orators.

2. Störf félagsmanna skulu metin samkvæmt stigakerfi sem hér segir:

a. Seta í stjórn Orators – 6. stig.

b. Seta í nefndum og sambærileg störf á vegum Orators – 2. stig.

c. Móttaka og viðgjörningar við erlenda gesti Orators – 1. stig.

d. Önnur störf í þágu Orators – 1. stig.

Alþjóðaritari eða fulltrúi hans fær þó styrk úr Ferðasjóði Orators án tillits til annarra styrkveitinga skv. reglum þessum, þegar fundur Norræna Alþjóðaritararáðsins (Nordiska Sekretariatet möte) og samkoma Norræna Alþjóðaritararáðsins (Nordiska Sekretariatet samling) eru haldnir.

44. gr. Reikningum sjóðsins skal haldið aðgreindum.

X. VARASJÓÐUR ORATORS

45. gr. Til staðar skal vera varasjóður Orators og höfuðstóll hans skal vera að lágmarki 500.000 kr. Höfuðstól sjóðsins ásamt verðbótum má aldrei skerða nema með samþykki tilsjónarmanna hans. Þeir skulu vera þrír síðustu formenn Orators, en sé einhver þeirra forfallaður skal leita til þess fyrrverandi formanns Orators sem næstur er í röðinni. Markmið sjóðsins skal vera að mæta fjárhagslegum áföllum sem Orators kann að verða fyrir vegna ófyrirsjáanlegra atvika. Sjóðurinn skal ávaxtaður

46. gr. […]

47. gr. Óheimilt er að leggja niður varasjóð Orators nema með samþykki ¾ hluta atkvæða aðalfundar og skal minnst helmingur félagsmanna sækja fund.

XI. ÝMIS ÁKVÆÐI

48. gr. Félaginu er heimilt að starfrækja lögfræðiaðstoð Orators. Stjórn Orators skipar tvo í embætti framkvæmdastjóra lögfræðiaðstoðar Orators að undangenginni auglýsingu meðal laganema. Skulu önnur störf við lögfræðiaðstoð Orators auglýst með sama hætti. Í embætti framkvæmdastjóra og önnur störf skulu þeir veljast sem stjórn Orators metur hæfasta til starfans. Við mat á hæfni umsækjanda skal meðal annars litið til námsárangurs, starfsreynslu, og samskiptahæfni. Stjórn Orators er heimilt að boða umsækjendur á sinn fund í því skyni að leggja frekara mat á hæfni þeirra. Jafnframt er stjórn Orators heimilt að starfrækja lögfræðiaðstoð á veraldarvefnum.

[48. gr. a. Félaginu er heimilt að starfrækja leigumarkaðsráðgjöf Orators. Stjórn Orators skipar tvo einstaklinga í embætti framkvæmdastjóra leigumarkaðsráðgjafar Orators. Skulu önnur störf við leigumarkaðsráðgjöf Orators auglýst með sama hætti. Í embætti framkvæmdastjóra og önnur störf skulu þeir veljast sem stjórn Orators metur hæfasta í starf. Við mat á hæfni umsækjanda skal meðal annars litið til námsárangurs, starfsreynslu og annarra starfa innan félagsins. Einnig skal líta til hvort umsækjendur hafa lokið áföngum í meistaranámi sem stuðla að þekkingu varðandi leigurétt. Leigumarkaðsráðgjöf Orators skal starfrækja leigumarkaðsráðgjöf að jafnaði einu sinni í viku á meðan skólaári stendur og endurgjaldslaust. Markmið leigumarkaðsráðgjafar Orators skal vera að stuðla að aðstoð við leigjendur á leigumarkaði við hver kyns vandamál sem kunna að rísa.]

49. gr. Félagið skal starfrækja Atvinnunefnd Orators er gegnir því hlutverki að koma á samstarfi milli Orators og fyrirtækja og/eða stofnana um ráðningar laganema við lagadeild Háskóla Íslands í lögfræðitengd störf. Markmið Atvinnunefndar Orators eru að efla tengsl nemenda í lagadeild Háskóla Íslands við íslenskt atvinnulíf. Atvinnunefndin skal koma tilkynningum um lausar stöður á framfæri við nemendur með markvissum hætti, svo sem með tölvupóstsendingum á alla laganema og auglýsingum í Lögbergi. Atvinnunefndin kemur ekki að ráðningunum sjálfum að neinu leyti, hvorki með mati á umsóknum, umsækjendum né öðrum hætti. Að loknum aðalfundi ár hvert skal auglýsa stöðu framkvæmdastjóra Atvinnunefndar Orators og að tillögu fráfarandi framkvæmdastjóra skal stjórn Orators skipa tvo laganema við Háskóla Íslands til að gegna stöðum framkvæmdarstjóra Atvinnunefndar Orators. Framkvæmdastjórum Atvinnunefndar Orators er heimilt að tilnefna tvo eða fleiri laganema við Háskóla Íslands sér til aðstoðar við almenn atvinnunefndarstörf. Framkvæmdastjórar og nefndarmenn skrifa undir trúnaðaryfirlýsingu. Atvinnunefnd heyrir undir varaformann.

50. gr. Félagið skal starfrækja Margmiðlunarnefnd sem heyrir undir skemmtanastjóra. Margmiðlunarnefnd hefur það hlutverk að vinna að hvers konar margmiðlunarverkefnum fyrir hönd félagsins. Nefndarmenn Margmiðlunarnefndar skulu skipaðir af stjórn Orators að tillögu formanns nefndarinnar. Margmiðlunarnefnd skal framleiða myndband sem skal vera sýnt á hátíðardegi félagsins.

51. gr. Eftir hvern aðalfund skal stjórn Orators koma saman og skipa í eftirfarandi embætti:

a. Sérstakan rannsóknar- og aðhaldsstjóra, að undangenginni auglýsingu meðal laganema. Hlutverk hans skal vera að vinna að hagsmunamálum félagsins og laganema í hvívetna og má honum ekkert mannlegt vera óviðkomandi. Raðhaldsstjóri, sem svo skal nefndur í daglegu tali, ber einungis ábyrgð gagnvart aðalfundi.

b. […]

c. Einn fulltrúa í Orðunefnd Orators. Hann ásamt formanni, varaformanni og ritstjóra Úlfljóts skipa nefndina og setja nánari reglur um orður félagsins.

52. gr. […]

53. gr. Stjórn Orators skal skipa íþróttajöfra sem bera ábyrgð á íþróttalífi laganema. Þeir skulu skipaðir eftir aðalfund ár hvert og vera að hámarki 6 talsins.

54. gr. Meiriháttar ágreining um lög þessi skal útkljá af gerðardómi. Skal stjórn Orators kjósa einn mann í dóminn, félagsfundur annan og forseti lagadeildar tilnefna oddamann úr hópi lögfræðinga.

55. gr. Félaginu skulu sett sérstök fundarsköp.

56. gr. Nú kemur fram tillaga um að félaginu skuli slitið og skal hún þá sæta sömu meðferð og tillaga til lagabreytinga skv. 13. gr., sbr. 24. gr. Ákvæði 14. gr. eiga ekki við um slíka tillögu.

57. gr. Sé félaginu slitið skulu eignir þess fengnar lagadeild til varðveislu, þar til laganemar stofna annað félag, sem ótvírætt telst arftaki Orators, og fær það þá eignirnar.

58. gr. Varaformaður Orators skal vera tengiliður stjórnar við Femínistafélagið Auði. Stjórn Orators skal funda með Auði einu sinni til tvisvar á skólaári í því skyni að stuðla að góðu samstarfi milli beggja félaga.

Þannig samþykkt á framhaldsaðalfundi Orators 2021.

FUNDARSKÖP ORATORS

I. Um fundarboð

1. Félagsfundi skal boða á tryggilegan hátt, t.d. með áberandi auglýsingum í anddyri háskólans og kennslustofum lagadeildar eða með póstsendu fundarboði, þegar kennsla fer ekki fram. Fundi skal boða með tveggja virkra daga fyrirvara og í tæka tíð með útsendu boði.

2. Í fundarboði skal geta dagskrár og er eigi heimilt að taka önnur mál til umræðu og afgreiðslu nema 2/3 þeirra sem sækja fund og sitja, séu því samþykkir.

3. Ef færri en tíundi hluti félagsmanna sækja fund, þá telst hann óhæfur til afgreiðslu mála. Fundur sem boðaður er innan viku, með sömu dagskrá, er þó hæfur til afgreiðslu mála með þeim takmörkunum, sem lög félagsins kunna að gera.l

II. Um fundarstjóra

4. Formaður félagsins, í fjarveru hans varaformaður, í fjarveru hans ritstjóri, setur fund og tilnefnir fundarstjóra sem síðan stýrir fundi, ef fundurinn styður eða þolir tilnefningu. Að öðrum kosti skal kjörið milli tillögu formannsins og tillagna fundarmanna og er sá fundarstjóri sem flest hlýtur atkvæði.

5. Varaformaður félagsins ritar gjörðabók eða fundarstjóri tilnefnir annan til þess starfa. Varaformaður skal auk þess veita fundarstjóra aðstoð við fundarstjórnina. Gjörðabók síðasta fundar skal lesin upp og samþykkt í fundarbyrjun. Umræður eru ekki heimilar um gjörðabók og skulu breytingartillögur afgreiddar þegar í stað. Frekari aðild fundarmanna að gjörðabókinni (sic) er ekki heimil, nema í formi skriflegrar athugasemdar, sem afhenda skal varaformanni. Varaformanni er skylt að skrá slíkar athugasemdir í gjörðabókina aftan við umdeilda fundargerð, enda sé athugasemdin undirrituð og eigi lengri en 50 orð.

6. Fundarstjóri túlkar og skýrir fundarsköpin og sker úr ágreiningi með þeim takmörkunum, sem fundarsköp þessi greina. Fundarmönnum ber að hlýða fundarstjóra og hlíta úrskurðum hans. Hann skal gæta góðrar reglu á fundi og sjá til þess að jafnan sé farið að fundarsköpum. Honum er heimilt að gera hlé á fundi, ef hann telur fundarmenn ekki fara að boðum þessarar greinar. Hafi hann ekki sett fund innan tíu mínútna, telst umboð hans niður fallið og skal þá formaður slíta fundi eða stjórna kjöri nýs fundarstjóra.

7. Fundarstjóra er óheimilt að bera fram dagskrártillögur. Vilji hann bera fram aðrar tillögur, þá skal hann lýsa tillögu sinni og óska þess, að einhver fundarmanna geri hana að sinni. Slík tillaga telst þá tillaga fundarmanns og skal hljóta venjulega meðferð.

III. Um fundarstörf

8. Mál fundarins skulu borin upp í þeirri röð sem auglýst dagskrá ákveður. Ef meiriháttar málefni eru rædd undir dagskrárliðnum „önnur mál”, ef hægt er að gera kröfu um, að fundurinn skeri úr um, hvort það skuli tekið upp sem nýr dagskrárliður og þarf þá slík tillaga þá afgreiðslu í samræmi við það, ella skal ekki heimilt að halda áfram umræðum um það. Allar tillögur, sem bornar eru upp undir dagskrárliðnum “önnur mál” þurfa stuðning 2/3 fundarmanna til samþykkis.

9. Fundarmaður, sem óskar þess að taka til máls, skal óska þess við fundarstjóra, sem skal skrá menn á mælendaskrá í þeirri röð, sem þeir biðja um orðið. Formanni og framsögumanni máls skal þó leyft að koma að stuttum skýringum, þrátt fyrir mælendaskrá.

10. Fundarstjóri skal gefa mönnum orðið í þessari röð:

a. athugasemd við framangreind fundarsköp og dagskrá,

b. athugasemd vegna persónulegrar réttarstöðu á fundinum, móðgunar eða aðdróttunar við þann, sem athugasemd gerir,

c. spurning eða óskum upplýsingar varðandi umræðuefnið,

d. ræðumenn skv. mælendaskrá eða þeir, sem kveða sér hljóðs, þegar fundarstjóri gefur orðið laust.

11. Athugasemd við fundarsköp má ávallt gera og er skylt að hlýða á hana og afgreiða hana eða tillögur skv. henni eftir þeim reglum, se fundarsköp þessi setja, nema á meðan ræðu stendur eða atkvæðagreiðslu. Slík athugasemd verður að vera örstutt og má eingöngu fjalla um meint brot á þessum fundarsköpum eða viðurkenndum óskráðum reglum, brot á auglýstri dagskrá, starf og úrskurði fundarstjóra eða tillögur um framkvæmd dagskrár eða um fundarhlé. Ef fundarmaður óskar þess að gera athugasemd skv. þessari heimild, þá má fundarstjóri beina itl hans fyrirspurn um efni athugasemdarinnar. Ef það reynist ekki í samræmi við ákvæði um slíka athugasemd, ef ræðumaður fer út fyrir þessa þröngu ræðuheimild eða ef ræðumaður orðlengir mál sitt og talar lengur en 3 mínútur, ber fundarstjóra þegar í stað að gefa næsta ræðumanni orðið. Fundarstjóri úrskurðar um réttmæti athugasemda skv. þessari ræðuheimild, nema tillaga um að breyta úrskurði hans sé rétt fram komin.

12. Athugasemdir skv. b. og c. lið skulu einnig vera örstuttar, og ef ræðumaður heldur sig ekki stranglega við það form og ástæður, sem þar eru heimilaðar eða talar lengur en 2 mínútur, ber fundarstjóra að gefa næsta ræðumanni orðið. Sá, sem beint var spurningu til, skal þó fá 2 mínútur til svara, sé hann ekki ræðumaður.

13. Fundarstjóri skal gæta þess vandlega að ræðumenn haldi sér að umræðuefninu skv. dagskrá. Skal hann áminna þá, sem fara óheyrilega út fyrir umræðuefnið, og er heimilt að óska skýringa á meintum málalengingum um óskylt mál. Ef ræðumaður skipast ekki við áminningu fundarstjóra, skal gefa næsta ræðumanni orðið.

14. Ef ræðumaður hefur með framferði sínu í ræðustól og óheimilum málalengingum tafið fundarstörf, má svipta hann málfrelsi um viðkomandi dagskrárlið, að undangenginni áminningu fundarstjóra ef 2/3 fundarmanna fallast á það álit fundarstjóra. Sama skal um þá gilda, sem með endurteknum framíköllum (sic) og gjammi spilla reglu á fundinum. Þetta á ekki við, ef fundarmaður er aðeins að halda fast við réttmæta kröfu sína til fundarstjóra um að fá orðið.

15. Tillögur skal flytja skriflega og leggja fram við fundarstjóra og er ekki heimilt að taka tillögur í öðru formi til greina. Tillögumaður skal mæla fyrir tillögu sinni og þegar hann hefur lagt tillöguna fram skal fundarstjóri spyrja fundinn hvort tillagan sé studd. Gefi a.m.k. einn fundarmanna sig fram þá telst tillagan rétt fram komin. Telst sá, sem gefur sig fram eða fyrst gefur sig fram að dómi fundarstjóra „stuðningsmaður” tillögunnar, en tillögumaður telst flytjandi tillögunnar. Ef enginn “stuðningsmaður” gefur sig fram skal litið svo á að tillagan hafi ekki verið flutt og skal ekki heimilt að ræða hana, né bera undir atkvæði. Flytjendur tillögu geta flestir verið 5 og ef þeir eru fleiri en einn er óþarft að leita “stuðningsmanna” úr hópi fundarmanna.

16. Ef meginmál tillögu er lengra en 100 orð, er hægt að krefjast þess, að henni sé dreift skriflega til allra fundarmanna. Ef ekki er orðið við slíkri kröfu fundarmanns, telst tillagan ekki rétt fram komin.

17. Ekki er heimilt að lesa upp prentað mál, nema með leyfi fundarstjóra. Ef ræðumaður hefur talað lengur en 30 mínútur er hægt að gera kröfu um, að það sé borið undir fundinn, hvort honum sé heimilt að lengja frekar mál sitt. Ef meirihluti fundarmanna samþykkir það ekki, skal ræðumaður eiga rétt á 5 mínútum til þess að ljúka máli sínu og fær hann síðan orðið aftur eftir venjulegum reglum, ef hann óskar þess. Þetta á ekki við um framsögumenn fyrir auglýstu dagskrármáli.

18. Þegar fjallað er um mál eða tillögu um það, breytingartillögu eða viðaukatillögu, er heimilt að bera fram eftirfarandi tillögu um fundarstörf og afgreiðslu mála, enda séu þær skriflegar. Fundarstjóri skal bera þær upp umræðulaust og þegar í stað, nema þegar á ræðu stendur eða atkvæðagreiðslu. Þær skulu bornar upp í þessari röð eftir að fundarstjóri hefur lýst efni allra slíkra tillagna, sem honum hafa borist:

a. tillaga um vantraust á fundarstjóra,

b. tillaga um að breyta úrskurði fundarstjóra,

c. tillaga um fundarhlé,

d. tillaga um afbrigði frá fundarsköpum,

e. tillaga um að slíta fundi,

f. tillaga um að fresta fundi,

g. tillaga um að tillaga sé borin undir atkvæði þegar í stað. Sé slík tillaga samþykkt skal gefa einum fundarmanna kost á því að mæla með tillögunni og einum á móti, enda tali þeir ekki lengur en 3 mínútur hvor. Tillögumaður og næsti stuðningsmaður tillögu skal gefin kostur á því að vera meðmælandi, ef þeir óska þess. Ella skal fundarstjóri velja með- og mótmælanda eftir röð mælendaskrár og beina fyrirspurn til þeirra áður, hvort þeir hyggjast gefa orðið laust fyrir mótmælanda tillögu og síðan meðmælanda, ef nokkrir eru og síðan bera tillöguna undir atkvæði,

h. tillaga um að víkka eða þrengja umræðuefnið skv. dagskrá,

i. tillaga um öflun frekari upplýsinga um mál,

j. tillaga um að vísa máli til nefndar,

k. tillaga um að endurskoða afstöðu eða afgreiðslu á máli fyrr á fundinum og/eða taka það aftur á dagskrá. Tillögur skv. d. og k. lið þurfa 2/3 hluta atkvæða til samþykkis.

19. Tillögur aðrar en dagskrártillögur skv. 19. gr. skal bera upp í þeirri röð, sem þær berast fundarstjóra. Þó skal bera breytingartillögur upp á undan aðaltillögu og þá fyrst, sem lengst ganga að áliti fundarstjóra. Tillögur, sem ósamrýmanlegar eru áður samþykktum tillögum og breytingartillögum skulu ekki koma til atkvæða nema skv. ákv. 18. gr. k. Viðaukatillögur skulu bornar upp eftir samþykki aðaltillögu, annars ekki og í þeirri röð, sem þær berast. Ef fleiri ósamrýmanlegar viðaukatillögur berast, skal þá fyrst upp, sem lengst gengur að áliti fundarstjóra, þá er eftir atvikum heimilt að úrskurða viðaukatillögu breytingartillögu á viðaukatillögu, sem fyrr barst, og afgreiða hana í samræmi við það.

20. Fundarstjóri skal lesa tillögu fyrir atkvæðagreiðslu, ef þess er óskað.

IV. Um atkvæðagreiðslur

21. Atkvæðagreiðslur geta farið fram með handauppréttingu eða með því að fundarmenn skipi sér í hópa. Krafa um leynilega atkvæðagreiðslu skal borin fram af 5 fundarmönnum hið fæsta, og er þá skylt að verða við kröfunni.

22. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála og kjör, nema annars sé sérstaklega getið í þessum fundarsköpum.

23. Varaformaður telur atkvæði ásamt fundarmönnum, sem fundarstjóri tilnefnir. Skal þess gætt að þessir tveir séu úr hópum formælanda (sic) og andmælanda (sic) viðkomandi máls. Kosningastjóri telur atkvæði við kjör á aðalfundi Orators. Ef um kjör er að ræða er þeim, sem í kjöri er, eða uppástungu gerði, heimilt að vera við talningu eða tilnefna fundarmann til þess.

24. Kröfu um að endurtaka atkvæðagreiðslu er ekki skylt að taka til greina, nema a.m.k. helmingur fundarmanna lýsi stuðningi við slíka kröfu með handauppréttingu. Ef atkvæðamunur er innan við 5 atkvæði við leynilega atkvæðagreiðslu er fundarstjóra skylt að verða við kröfu 5 fundarmanna hið fæsta um að atkvæði skuli talin aftur.

25. Kjör í stjórn og nefndir skal jafnan vera óhlutbundið. Tilnefningar mega vera munnlegar eða skriflegar, en þeim, sem tilnefnir mann, er skylt að segja deili á þeim, er hann gerir tillögu um, með nokkrum orðum, en eigi lengur en 2 mínútur. Heimilt er að krefjast þess, að sá sem stungið er upp á, láti samþykki sitt í ljós eða að samþykkið sé vottað með öðrum tryggilegum hætti.

26. Nú falla atkvæði jafnt og telst tillaga þá fallin. Ef atkvæði falla jafnt við kjör, skal endurtaka kosningu milli viðkomandi frambjóðenda þegar í stað. Falli atkvæði enn jafnt, ræður hlutkesti.

27. Við stjórnarkjör skal gæta ákvæða 17. gr. laga félagsins. Við afgreiðslu á lagabreytingum eða breytingum á fundarsköpum skal gæta ákvæða 13. gr., sbr. 14. gr., laga félagsins. Ákvæðin um aukinn meirihluta til samþykktar eiga þó ekki við um breytingar á fundarsköpum, heldur nægir þar einfaldur meirihluti, ef öðrum skilyrðum (sic) nefndra lagagreina er gætt.

V. Ýmis ákvæði

28. Ef nauðsynlegt er að slíta fundi vegna utanaðkomandi ástæðna, ber stjórn félagsins að skýra frá því eigi síðar en 30 mínútum fyrir þann tíma, ella frestast fundur af sjálfu sér.

29. Fundarmenn skulu í hvívetna gæta góðrar reglu á fundum og trufla ekki fundarstörfin með samræðum eða óþörfu rápi. Skal fundarstjóri áminna þá, sem hann telur brjóta þessar reglur sem og önnur ákvæði þessara fundarskapa. Nú gerist fundarmaður sekur um óheyrilegt framferði á fundinum, raskar gróflega sómatilfinningu fundarmanna eða stofnar almennri reglu á fundinum í bráðan voða eða er að öðru leyti til almenns hneykslis, og er þá að undangenginni alvarlegri áminningu fundarstjóra láti viðkomandi ekki skipast, heimilt að bera fram tillögu um að hinum brotlega skuli vikið af fundinum. Fái slík tillaga atkvæði 2/3 hluta þeirra sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni er hún rétt framkvæmd. Slík atkvæðagreiðsla skal fara strax fram og með handauppréttingu. Stjórn félagsins er ábyrg fyrir þvðí að utanaðkomandi víki þegar í stað af fundi, ef slík tillaga er samþykkt.

30. Stjórn félagsins er skylt að útvega sómasamlegt húsnæði til fundarstarfa og leigja það til hæfilegs tíma og eigi skemur en 180 mínútur. Þá skal fundarstaður rúma vel sennilega fundarsókn. Aðalfundi skal halda í húsnæði, sem rúmar alla félagsmenn í sæti. Stjórn félagsins er skylt að sjá til þess að öll áhöld og tæki, sem þarf til fundarhaldsins séu á fundarstað. Þá er stjórninni skylt að hafa handbæra löggilta atkvæðaseðla, ef á þarf að halda. Löggilt eintak af þessum fundarsköpum skal jafnan haldbært á fundarstað og er stjórn félagsins jafnframt skylt að sjá til þess, að félagsmenn geti eignast eintak af þessum fundarsköpum, ef þeir óska þess.