Á deildarfundi lagadeildar Háskóla Íslands þann 26. nóvember síðastliðinn var tekin ákvörðun um að fella úr gildi heimild til 60 eininga skiptináms.

Tímasetning ákvörðunarinnar er sérstaklega gagnrýnd þar sem um er að ræða breytingar á skiptinámi sem taka gildi fyrir skólaárið 2020-2021. Fyrr á skólaárinu var skiptinám kynnt fyrir nemendum en opnað verður fyrir umsóknir um miðjan desember n.k. Ákvörðun sem þessi raskar því verulega áætlunum og áformum laganema sem þegar voru búnir að skipuleggja næstkomandi skólaár.

Athugasemdir eru einnig gerðar við ferli ákvörðunartökunnar. Tillögu um breytingu á reglum um skiptinám var bætt á dagskrá náms- og kennslunefndar lagadeildar aðeins nokkrum mínútum fyrir áætlaðan fund 21. nóvember. Á deildarfundi lagadeildar 26. nóvember var fyrirhuguð reglubreyting tekin fyrir og kosið var um breytingarnar. Atkvæðagreiðsla í báðum tilvikum fór þannig að allir fulltrúar nemenda kusu gegn fyrirhuguðum breytingum.

Upplifun fulltrúa nemenda er sú að málefnið sem um ræðir hafi verið keyrt í gegn með það að marki að nemendur hefðu sem minnst um það að segja. Hlutverk nemenda á fundum sem þessum er að koma sjónarmiðum nemenda á framfæri. Vegna þess hvernig komið var að fyrirhuguðum breytingum telja fulltrúar nemenda sig ekki hafa fengið tækifæri til að sinna hlutverki sínu við hagsmunagæslu fyrir hönd nemenda lagadeildar.

Orator leggur áherslu á að fjölbreytt nám sé í boði fyrir nemendur lagadeildar. Stjórn Orators telur að til séu aðrar leiðir sem vinna að sama marki en bitna ekki að jafnmiklu leyti á hagsmunum nemenda. Orator harmar að þær hafi ekki fengið meira rými í umræðunni. Orator hefur barist fyrir hagsmunum nemenda hingað til, og kemur til með að halda því áfram.